Eignarfall fleirtölu veikra kvenkynsnafnorða – reglur og orðaskrá

Við beygingu veikra kvenkynsnafnorða er aðalreglan sú að eignarfall fleirtölu endar á -na.

eintala fleirtala
nf. stúlka stúlkur
þf. stúlku stúlkur
þg. stúlku stúlkum
ef. stúlku stúlkna

Í allnokkrum tilvikum, sem helgast að meira eða minna leyti af hljóðfræðilegum takmörkunum, fellur n-ið niður og ending eignarfalls fleirtölu verður -a.

eintala fleirtala
nf. bauja baujur
þf. bauju baujur
þg. bauju baujum
ef. bauju bauja

Þessar hljóðfræðilegu takmarkanir eru eftirfarandi:

1) Orð sem enda á sérhljóði og a, flest enda þau á -ía: aría, baktería, bleia, kría, nía, olía, revía, sinfónía, sía, sjöa, spássía, stía, tía.

2) Orð sem enda á -ja nema á undan fari lokhljóðs-g eða k (sbr. bylgna, kirkna): bauja, bábilja, belja, blæja, brynja, eyja, ferja, flugfreyja, gresja, gryfja, gyðja, hárlýja, hetja, húsfreyja, hryðja, hvelja, iðja, keðja, kilja, koja, kveðja, leðja, lilja, meyja, miðja, nefja, óbyrja, óhemja, pæja, selja, smiðja, spýja, styrja, tátilja, treyja, valkyrja, venja, verja, þilja.

3) Orð sem enda á -na: appelsína, ásjóna, brenna, buna, dýna, gardína, gína, glyrna, himna, hyrna, hæna, jafna, kanína, kanna, kleina, kóróna, króna, kæna, lína, loðna, lúpína, læna, mjóna, nunna, ónefna, panna, persóna, renna, runa, rúsína, senna, sítróna, skeina, skepna, spenna, spræna, spyrna, stefna, stjarna, stuna, tína, trjóna, tunna, þerna, þynna. Þó verður kona í ef. ft. kvenna.

4) Orð sem enda á -ra: ákúra, ákæra, bára, blaðra, eggjahræra, ekra, evra, firra, fjara, gára, gildra, glæra, gæra, hjólbörur (fleirtöluorð), hóra, hæra, kerra, ístra, klóra, kytra, kæra, leira, líra, naðra, para, pera, skora, snara, snúra, sperra, spíra, súra, sýra, torfæra, tuðra, týra, vara, veira, vera, þvara. Það skal þó tekið fram að ef á undan r-inu fer sérhljóði má vel nota na-endinguna enda eru dæmi um slíkt í eldra máli. Fráfæra er t.d. alltaf fráfærna í ef. ft. og myndirnar leirna og súrna koma fyrir í örnefnum. Til samanburðar má einnig benda á veiku hvorugkynsorðin nýra og eyra sem eru nýrna og eyrna í ef. ft.

5) Orð sem enda á -va: fræva, tölva og völva.

6) Orðið stofa. Að öðrum kosti félli það saman við orðið stofn sem er stofna í ef. ft.

Veik kvenkynsnafnorð þar sem mælt er með endingunni -na í ef. ft. — flokkuð eftir endingum

BA: -ba: amaba.
-bba: gribba, nibba.
-mba: bomba, bumba, demba, hellidemba, kemba, trumba, tvílemba, þrílemba.
DA: -dda: bredda, budda, gedda, kredda, lydda, padda, skrudda.
-lda: alda, fjölskylda, kelda, skylda, snælda, spilda.
-nda: benda, blanda, blúnda, braghenda, forsenda, nýlenda, samkunda, sekúnda, sonda, spanda, vinda.
ÐA: -ða: afleiða, ábreiða, ástríða, ástæða, ballaða, blaðsíða, blíða, breiða, brúða, eggjarauða, eyða, fuglahræða, glæða, gráða, greiða, hlaða, hljómkviða, hræða, hviða, iða, kringumstæður (fleirtöluorð), kviða, lúða, læða, niðurstaða, óreiða, rafhlaða, rúða, ræða, samræða, síða, skriða, slæða, staða, stæða, tróða, túða, umræða, viðræða.
-gða: bugða, tregða.
-rða: furða, orða, snurða, spyrða, varða.
FA: -fa: drífa, dúfa, fífa, gáfa, glufa, grafa, gufa, hjásvæfa, hrífa, hrufa, húfa, ídýfa, kofa, krafa, kæfa, óhæfa, ólífa, rifa, rófa, skafa, skeifa, skífa, skrofa, skrúfa, skræfa, slaufa, tófa, tæfa, útgáfa, veifa, vofa, þúfa.
-ffa: lúffa, skúffa.
-lfa: elfa, heimsálfa, kylfa.
-rfa: herfa, karfa, lirfa, torfa.
GA: -ga: ambaga, atlaga, baga, bréfalúga, eiga, flaga, fluga, hrúga, kvíga, lega, leiga, lúga, plága, saga, smuga, sviffluga, tillaga, undanþága, þrúga, þvaga.
-ðga: mæðgur (fleirtöluorð).
-gga: kröggur (fleirtöluorð), lögga, rugga, tugga, vagga.
-lga: bólga, felga, fúlga, ólga.
-nga: bunga, bringa, fjallganga, ganga, gunga, langa, nálastunga, samgöngur (fleirtöluorð), slanga, sprunga, stunga, tunga, þvinga.
GJA: -gja: beygja, slægja, teygja, tægja.
-ggja: áhyggja, bryggja.
-lgja: bylgja, fylgja, hljóðbylgja, sylgja.
-ngja: dyngja, jarðsprengja, lengja, pyngja, sprengja.
KJA: -kja: bleikja, flækja, gráfíkja, hækja, íkveikja, krækja, rekja, rækja, skækja, sleikja, sliskja, tekja, ýkja, þekja.
-kkja: bikkja, drykkja, ekkja, lykkja, rekkja, skekkja, skikkja, snekkja.
-rkja: kirkja.
-skja: askja, manneskja, ófreskja, sveskja.
-rskja: ferskja.
KA: -ka: andvaka, baka, eka, flatbaka, flatkaka, haka, handtaka, inntaka, kaka, kjúka, klíka, kráka, leðurblaka, loka, lúka, myndataka, reka, roka, samloka, skaka, skjaldbaka, smjörskaka, staka, stika, stroka, stúka, taka, tvíbaka, upptaka, vaka, vika, þoka.
-ðka: blaðka, hreðka.
-kka: brekka, dúkka, hjúkka, hrukka, klukka, krukka, rauðsokka, sakka, skrukka.
-lka: álka, spelka, stúlka.
-nka: frænka, pjönkur (fleirtöluorð).
-rka: agúrka, gúrka, harka, purka.
-ska: flaska, ljóska, tíska, tuska.
LA: -la: borhola, bóla, bræla, deila, dula, dæla, fjóla, fæla, gála, gæla, hola, hula, hvíla, íla, keila, kola, kúla, míla, næla, píla, rola, róla, sala, sála, skjóla, skýla, skæla, spóla, stæla, súla, svala, tala, uppsala, útsala, vala, veila, þula, æla.
-bla: rúbla.
-dla: mandla.
-ðla: daðla, eðla, fiðla, núðla.
-fla: holskefla, kartafla, skófla, stífla, sveifla, tafla, vöflur (fleirtöluorð).
-ffla: griffla, taffla, vaffla.
-gla: beygla, mygla, regla, sigla, ugla.
-ngla: hringla, kringla, rengla.
-kla: stikla.
-lla (dl): átylla, bjalla, bulla, della, dolla, fella, filla, frilla, fylla, gómfilla, hella, hilla, kolla, krulla, mella, ritvilla, rolla, samfella, skella, stilla, sylla, vangafilla, vella, villa.
-lla (l:): bolla, gella, julla, krulla, mylla, pilla, rúlla, sella, trilla, villa, vindmylla.
-mla: hamla, krumla, tromla.
-pla: skupla
-rla: perla, þyrla.
-sla: drusla, gæsla, sýsla, veisla.
-ðsla: afgreiðsla, bræðsla, eyðsla, greiðsla, hleðsla, leiðsla, niðurgreiðsla.
-gsla: vígsla.
-msla: geymsla.
-nnsla: brennsla, vinnsla.
-rsla: áhersla, færsla, hirsla, keyrsla, skýrsla, varsla, yfirfærsla, yfirheyrsla.
-tla: brenninetla, margfætla, pjatla, skrýtla, skutla, tætla, veggjatítla.
-ttla: pyttla.
MA: -ma: áma, bóma, fruma, glíma, gríma, koma, náma, ríma, ræma, skipakoma, þruma.
-lma: álma, filma.
-mma: amma, klemma, komma, lumma, mamma, rimma, skemma, stemma, summa, tomma, tromma.
PA: -pa: afsteypa, antílópa, ádrepa, drápa, gnípa, hamhleypa, kápa, knæpa, kúpa, marghleypa, nípa, pípa, púpa, rjúpa, samsteypa, sápa, stjúpa, súpa, svipa, túpa.
-lpa: stelpa, telpa, úlpa, vilpa.
-mpa: glompa, hempa, kempa, kompa, pumpa.
-ppa: doppa, grásleppa, kippa, klippa, kreppa, kryppa, loppa, mappa, stappa, steppa, trappa, teppa, úrklippa, þjappa.
-rpa: eldvarpa, harpa, skorpa, skyrpa, syrpa.
-spa: hespa, rispa, vespa.
SA: -sa: ausa, dræsa, glósa, gusa, hnísa, hosa, kisa, klausa, kveisa, lögleysa, peisa, peysa, reisa, rökleysa, skvísa, sósa, spúsa, vegleysa, vísa, ýsa.
-fsa: lufsa.
-gsa: flygsa.
-lsa: pulsa, pylsa.
-msa: bomsa, bremsa, romsa.
-nsa: flensa, kvensa, linsa.
-ssa: assa, brussa, byssa, blússa, dýflissa, hlussa, hryssa, jússa, kássa, klessa, messa, mussa, pressa, prinsessa, sessa, skessa, skissa, skyssa, trossa.
TA: -ta: áta, áveita, beita, breyta, dýraæta, eggjahvíta, farþegaþota, fata, flauta, fleyta, fyrirsæta, gata, gáta, gjóta, grasæta, greiðslunóta, grænmetisæta, gætur (fleirtöluorð), heimasæta, herþota, hitaveita, hneta, hrota, hvíta, jarðýta, jata, jurtaæta, káeta, lota, mannæta, mínúta, múta, nóta, plata, pláneta, púta, rafveita, ráðgáta, rita, rúta, sáta, seta, skata, skjáta, sónata, sprauta, spýta, spæta, strýta, svíta, táta, tilgáta, tota, vatnsveita, veita, ýta, þota, þræta, æta.
-fta: lyfta, vifta, þófta.
-kta: skekta.
-lta: bylta, gylta, kelta, kjalta, sulta, velta.
-mta: gjaldheimta, innheimta.
-nta: mynta, piparmynta, planta, renta, svunta, trunta.
-rta halakarta, murta, skyrta, sturta, terta, urta, varta.
-sta: kista, kærasta, orrusta, rista, unnusta, veisluþjónusta.
-tta: átta, bretta, bytta, engispretta, fetta, flétta, gretta, hetta, hugdetta, hætta, klarínetta, motta, raketta, rotta, saumspretta, silfurskotta, sígaretta, skvetta, skytta, sletta, slétta, stytta, tútta, uppfletta, uppspretta, uppstytta.
XA: -xa: buxur (fleirtöluorð), nærbuxur (fleirtöluorð), sokkabuxur (fleirtöluorð), stuttbuxur (fleirtöluorð).
Deila:
 • Senda á Facebook
 • Senda á Twitter
 • Senda tengil í tölvupósti
 • Prentvæn útgáfa
 • Setja síðu í bókamerki

Erlend nöfn og íslensk ættarnöfn

Oft er fólk í vafa um beygingu erlendra nafna og íslenskra ættarnafna í eignarfalli. Mælt er með eftirfarandi reglum (sjá nánara um þetta efni rit Ingólfs Pálmasonar, Um ættarnöfn og erlend mannanöfn í íslensku, 1987):

1) Ættarnöfn kvenna, innlend sem erlend, eru að jafnaði ekki beygð: að sögn Sigríðar Snævarr, þáttur Guðrúnar Kvaran, stefna (Margrétar) Thatcher, hæfileikar (Hillary) Clinton. Ekki: hæfileikar “Hillarys Clintons” o.s.frv. enda óeðlilegt að nota s-endingu með nöfnum kvenna því að s er ekki eignarfallsending í kvenkyni í neinum íslenskum beygingarflokki.

2) Erlend nöfn og innlend ættarnöfn borin af körlum.
a) Þau fá oftast s-endingu í eignarfalli: stjórn Tonys Blairs, ræða Görans Perssons, dóttir Alis Bhuttos, að sögn Árna Snævars, verk Einars Kvarans o.s.frv.
b) Endi nafnið sjálft á s-i eða öðru blísturshljóði þarf ekki sérstakt eignarfalls-s (stjórnir Landsbergis, Bush og Milosevic) en reyndar grípa sumir þá til endingarinnar -ar í eignarfalli: bók Örnólfs Thorlaciusar, stjórn Mitsotakisar.
c) Þegar erlend nöfn karla enda á sérhljóðinu -a eru nöfnin hins vegar óbeygð og er það í samræmi við (agnarsmáan) íslenskan beygingarflokk karlkynsnafnorða sem enda á -a (Esra, herra, séra), t.d. stjórn Gamsakurdia, mynd Kurosawa, útgerð Geirs Zoëga.
d) Endi nafn á öðru sérhljóði en -a ætti að styðjast við aðalregluna og nota eignarfalls-s, t.d. fylgismenn Benitos Mussolinis o.s.frv. (enda er það í samræmi við ýmis íslensk mannanöfn sem enda á öðrum sérhljóðum en -a, sbr. til Leós, Ottós o.fl.).

3) Rökrétt telst og í bestu samræmi við íslenska málhefð að beygja í eignarfalli bæði skírnarnafn og ættarnafn sem karl ber, sbr. verk Einars Kvarans, fylgismenn Benitos Mussolinis, Stofnun Sigurðar Nordals. Þetta atriði hefur verið dálítið á reiki í málsamfélaginu á öldinni og til eru þær málvenjur að beygja annaðhvort aðeins skírnarnafn eða aðeins ættarnafn (t.a.m. ákvörðun Halldórs Blöndal, stjórn Bills Clinton, stjórn Bill Clintons). Hér er ekki mælt með þeirri aðferð sem meginreglu. Vissulega verður þó smekkur stundum að fá að ráða einhverju um hve langt skuli gengið í beygingu erlendra nafna, einkum um það hvort öll nöfn skuli beygð í sumum fleirnefnum á borð við Poul Nyrup Rasmussen.

Deila:
 • Senda á Facebook
 • Senda á Twitter
 • Senda tengil í tölvupósti
 • Prentvæn útgáfa
 • Setja síðu í bókamerki

Mismunarþágufall

Þágufall mismunarins (eða mismunarþágufall) birtist:

1) Með miðstigi. Dæmi: hún er þremur árum eldri en hann, maturinn er miklu gómsætari núna.

2) Með forsetningunni of. Dæmi: hann er tveimur árum of ungur til að byrja í skóla.

3) Með forsetningunum fyrir og eftir. Dæmi: þau byrjuðu að lesa þremur dögum fyrir próf, einkunnirnar birtust einum mánuði eftir prófið, kofinn stóð tveim metrum fyrir ofan húsið, hengdu myndina hálfum metra fyrir neðan hina.

4) Með staðaratviksorðum sem enda á -an (auk orðanna til hliðar) ef þau standa á undan forsetningunni við. Dæmi: hlaðan stendur fjórum metrum sunnan við bæinn, hann stendur a.m.k. þremur metrum til hliðar við hópinn.

5) Með orðunum á undan og á eftir. Dæmi: hann lauk verkinu þremur dögum á undan áætlun, hún kom hálfum metra á eftir systur sinni í mark.

Deila:
 • Senda á Facebook
 • Senda á Twitter
 • Senda tengil í tölvupósti
 • Prentvæn útgáfa
 • Setja síðu í bókamerki

Ópersónulegar sagnir

Ópersónuleg sögn er ávallt í þriðju persónu eintölu og stendur oftast með henni frumlag í þolfalli eða þágufalli. Mig skortir ekkert. Mennina skortir ekkert. Mér þykir gaman á fjöllum. Þeim þykir gaman á fjöllum. Það er nokkur tilhneiging til að hafa frumlag í þágufalli með sumum sögnum þar sem frumlagið ætti samkvæmt gamalli hefð að vera í þolfalli, t.d. “henni langar upp á fjöll” í stað hana langar upp á fjöll. Enda þótt breytingin yfir í þágufall eigi sér meira en aldarlanga sögu hefur hún verið uppnefnd þágufallssýki og þykir ekki við hæfi í vönduðu máli.

Ópersónulegar sagnir, sem taka með sér frumlag í þágufalli og andlag í nefnifalli, hafa tilhneigingu til að standa í fleirtölu þegar andlagið er í fleirtölu. Mér finnast (3.p.ft.) kökur vondar. Mér svíða (3.p.ft.) gróusögur þeirra. Mér þykja (3.p.ft.) ávextir góðir. Mér duga (3.p.ft.) tvær brauðsneiðar. Þó að ekki sé mælt gegn slíkri notkun hefur fremur verið mælt með því að hafa sagnirnar í eintölu. Mér finnst kökur góðar. Mér svíður gróusögur þeirra. Mér þykir ávextir góðir. Mér dugir tvær brauðsneiðar.

Sumar ópersónulegar sagnir taka ekki með sér neitt frumlag. Slíkar sagnir eru oft kallaðar veðursagnir þar sem þær lýsa yfirleitt veðri. Í dag snjóar en í gær rigndi. Nú birtir til.

Deila:
 • Senda á Facebook
 • Senda á Twitter
 • Senda tengil í tölvupósti
 • Prentvæn útgáfa
 • Setja síðu í bókamerki

Stigbreyting atviksorða

Atviksorð eru óbeygjanleg að öðru leyti en því að sum þeirra stigbreytast. Oft – oftar – oftast; fallega – fallegar – fallegast; sjaldan – sjaldnar – sjaldnast; lengi – lengur – lengst. Meðal þeirra eru atviksorð sem upprunalega eru hvorugkyn lýsingarorða. Þau stigbreytast eins og lýsingarorð að öðru leyti en því að sum þeirra fella niður a-endinguna í miðstigi:

frumstig miðstig efsta stig
hratt hraðar(a) hraðast
langt lengra lengst
skjótt skjótar(a) skjótast
vítt víðar(a) víðast
ört örar(a) örast
Deila:
 • Senda á Facebook
 • Senda á Twitter
 • Senda tengil í tölvupósti
 • Prentvæn útgáfa
 • Setja síðu í bókamerki

Þolmynd

Þolmynd er oft notuð þegar lögð er meiri áhersla á þolanda en geranda.

Þegar venjulegri setningu í germynd er breytt yfir í þolmynd gerist eftirfarandi:

1) Frumlag setningarinnar (gerandinn) verður í aukahlutverki og getur færst aftast í setninguna á eftir forsetningunni af en er þó oft sleppt.

2) Andlag germyndarsetningarinnar (þolandinn) verður í aðalhlutverki og færist yfir í nefnifall ef um andlag í þolfalli er að ræða en andlag í þágufalli og eignarfalli breytist ekkert.

3) Sögnin færist yfir í lýsingarhátt þátíðar og stendur með hjálparsögninni vera (einstöku sinnum verða).

Hann eldaði kvöldmatinn (þf.) verður í þolmynd: kvöldmaturinn (nf.) var eldaður (af honum).
Hann bauð mér (þg.) heim verður í þolmynd: mér (þg.) var boðið heim (af honum).
Hún gaf honum (þg.) eina rauða rós (þf.) verður í þolmynd: honum (þg.) var gefin ein rauð rós (nf.) (af henni).
Hann saknaði hennar (ef.) verður í þolmynd: hennar (ef.) var saknað (af honum).

Nokkuð er farið að bera á því að sagt sé: það var sagt mér það, það var lamið mig, það var hrint mér o.s.frv. í stað mér var sagt það, ég var laminn, mér var hrint. Ekki er mælt með þeirri nýjung.

Deila:
 • Senda á Facebook
 • Senda á Twitter
 • Senda tengil í tölvupósti
 • Prentvæn útgáfa
 • Setja síðu í bókamerki