Orðasambönd með forsetningunni

Afl: Að afli. Hann er rammur að afli.
Auðugur: Eitthvað er auðugt að einhverju. Áin er auðug að fiski.
Ánægja: Það er ánægja að einhverju. Það er mikil ánægja að því að klífa fjöll.
Áskrifandi: Áskrifandi að einhverju. Þau eru áskrifendur að Morgunblaðinu.
Ástæðulaus: Að ástæðulausu. Hann fór að hlæja að ástæðulausu.
Barn: Kona er ólétt, ófrísk eða vanfær að barni. Hún er ólétt að sínu fjórða barni.
Bót: Það er bót að einhverju. Það er mikil bót að lagfæringunum.
Bragð: Að fyrra bragði. Hann ávarpaði hana að fyrra bragði. Brögð að einhverju. Víða eru brögð að því að umferðarlög séu ekki virt.
Brosa: Brosa að einhverju. Þau brostu að vitleysunni í henni.
Dást: Dást að einhverju. Ég dáist að viljastyrk þeirra.
Eftirsjá: Það er eftirsjá að einhverjum. Það er alltaf eftirsjá að góðum starfsmanni.
Eiður: Sverja eða vinna eið að einhverju. Þú verður að sverja eið að því að þú sért saklaus.
Frumkvæði: Að eigin frumkvæði. Hann hætti í skóla að eigin frumkvæði.
Gagn: Það er gagn að einhverju. Það er mikið gagn að þessari bók.
Gaman: Henda gaman að einhverju. Nemendurnir henda gaman að kennaranum. Það er gaman að einhverju. Það er oft gaman að vitleysunni í henni.
Gera: Gera mikið eða lítið að einhverju. Þau gerðu lítið að því að læra heima.
Heiður: Það er eða þykir heiður að einhverju. Mér er heiður að þessu. Mér þykir heiður að þessu.
Hlæja: Hlæja að einhverjum. Þau hlógu mikið að honum.
Kaupandi: Kaupandi að einhverju. Hann er kaupandi að tímariti.
Kunnur: Vera kunnur að einhverju. Hann er að góðu kunnur.
Leyti: Að einhverju leyti. Veislan var ómöguleg að öllu leyti.
Lýti: Það er lýti að einhverju. Það er mikið lýti að bílhræinu.
Prýði: Það er prýði að einhverju. Það er sannkölluð bæjarprýði að lystigarðinum.
Ráð: Að yfirlögðu ráði. Hún kveikti í bílnum að yfirlögðu ráði.
Ríkur: Vera ríkur að einhverju. Hann var ríkur að fé.
Skömm: Skömm að einhverju. Það er mikil skömm að því hvernig þau láta.
Sómi: Sómi að einhverju. Honum var mikill sómi að gjöfinni.
Sæmd: Sæmd að einhverju. Mér er sæmd að aðstoð þinni.
Snauður: Vera snauður að einhverju. Jarðvegurinn er snauður að næringarefnum.
Teikning: (Arkitekta)teikning að einhverju (sbr. uppskrift að einhverju). Hann lauk við teikninguna að listasafninu undir morgun.
Tilefni: Að gefnu tilefni. Að gefnu tilefni var höfð brunaæfing.
Uppskrift: Uppskrift að einhverju. Hún lét mig fá uppskrift að mjög góðri rjómatertu.
Uppvís: Verða uppvís að einhverju. Hann varð uppvís að þjófnaði.
Verða: Verði þér að því. Takk fyrir mig. Verði þér að því.
Verðleikar: Meta eitthvað að verðleikum. Kennarinn mat nemendur sína að verðleikum.
Verk: Gera að verkum. Þetta gerir það að verkum að ekki er hægt að horfa á sjónvarpið í kvöld.
Vitni: Vitni að einhverju. Þau urðu vitni að glæp.
Þekkja: Þekkja einhvern að einhverju. Við þekkjum þau að góðu einu.

Sjá einnig grein um forsetninguna af.

Deila:
 • Senda á Facebook
 • Senda á Twitter
 • Senda tengil í tölvupósti
 • Prentvæn útgáfa
 • Setja síðu í bókamerki

aðgöngumiði / miði

Talað er um aðgöngumiða að sýningu en miða á sýningu.

Deila:
 • Senda á Facebook
 • Senda á Twitter
 • Senda tengil í tölvupósti
 • Prentvæn útgáfa
 • Setja síðu í bókamerki

af

Orðasambönd með forsetningunni af

Afl: Af öllu afli. Hann barði í borðið af öllu afli.
Afnot: Hafa afnot af einhverju. Þau hafa afnot af bílnum þegar þeim hentar.
Ánægja: Hafa ánægju af einhverju. Þau hafa mikla ánægju af heimsóknum barnabarna sinna.
Ástæða: Af einhverri ástæðu. Hún fór ekki af neinni sérstakri ástæðu.
Birgja: Birgja sig upp af (einnig að) einhverju. Hann birgir sig upp af matvælum.
Gagn: Hafa gagn af einhverju. Hún hefur mikið gagn af bókinni sem þú lánaðir henni.
Gaman: Hafa gaman af einhverju. Þeir hafa gaman af fótbolta.
Ganga: Ganga af einhverjum dauðum. Þeir fóru nærri því að ganga af honum dauðum.
Hálfa: Af hálfu einhvers. Þetta er afgreitt mál af minni hálfu.
Heiður: Eiga/fá/hljóta heiðurinn af einhverju. Hún átti heiðurinn af allri endurbyggingunni.
Mark: Leggja eitthvað af mörkum. Allir lögðu sitt af mörkum til söfnunarinnar.
Megn: Af fremsta megni. Hann reyndi af fremsta megni að gera henni til hæfis.
Mynd: Mynd af einhverju. Þessi mynd er af fjölskyldunni.
Ráð: Af ásettu ráði. Hann rakst utan í hana af ásettu ráði.
Sem: Það sem af er. Það sem af er þessu ári hefur salan gengið ágætlega.
Tilefni: Af einhverju tilefni. Efnt var til fagnaðar af engu tilefni. Í tilefni af einhverju. Við fórum út að borða í tilefni af verklokum.
Vilji: Af fúsum og frjálsum vilja. Þau tóku verkið að sér af fúsum og frjálsum vilja.
Vit: Gera eitthvað af viti. Það er ekki hægt að segja að hann tali af miklu viti.
Vottur: Vottur af einhverju. Það er örlítill vottur af mari á fingrinum.

Sjá einnig grein um forsetninguna .

Deila:
 • Senda á Facebook
 • Senda á Twitter
 • Senda tengil í tölvupósti
 • Prentvæn útgáfa
 • Setja síðu í bókamerki

af fúsum og frjálsum vilja

Talað er um að gera eitthvað af fúsum og frjálsum vilja. Þau tóku verkið að sér af fúsum og frjálsum vilja.

Deila:
 • Senda á Facebook
 • Senda á Twitter
 • Senda tengil í tölvupósti
 • Prentvæn útgáfa
 • Setja síðu í bókamerki

af viti

Talað er um að gera eitthvað af viti. Það er ekki hægt að segja að hann tali af miklu viti.

Deila:
 • Senda á Facebook
 • Senda á Twitter
 • Senda tengil í tölvupósti
 • Prentvæn útgáfa
 • Setja síðu í bókamerki

afsökun / biðja / biðjast

Betra er að segja biðjast afsökunar og biðja einhvern afsökunar en biðja afsökunar.

Deila:
 • Senda á Facebook
 • Senda á Twitter
 • Senda tengil í tölvupósti
 • Prentvæn útgáfa
 • Setja síðu í bókamerki

allt að

Líta má á orðin allt að sem atviksorðslið, sem ekki stýrir falli, líkt og upp undir og hátt í. Samkvæmt því má segja:  herbergið er allt að fjórir metrar (nf.) á lengd, hún drekkur allt að þrjá bolla (þf., andlag sagnarinnar drekka) af kaffi á dag.
Önnur leið er að líta á allt sem atviksorð og sem forsetningu sem stýri þágufalli. Samkvæmt því má segja: herbergið er allt að fjórum metrum (þg.) á lengd, hún drekkur allt að þremur bollum (þg.) af kaffi á dag.

Deila:
 • Senda á Facebook
 • Senda á Twitter
 • Senda tengil í tölvupósti
 • Prentvæn útgáfa
 • Setja síðu í bókamerki

andlit / hylja

Betur fer á að segja konur hylja andlit sitt en konur hylja andlit sín (sbr. hylja ásjónu sína).

Deila:
 • Senda á Facebook
 • Senda á Twitter
 • Senda tengil í tölvupósti
 • Prentvæn útgáfa
 • Setja síðu í bókamerki

annaðhvort … eða / annaðhvort

Samtengingin annaðhvort … eða er svokölluð fleyguð samtenging; nafnið er dregið af því að eitt eða fleiri orð eru á milli annaðhvort og eða. Samtenginguna er aðeins hægt að nota þegar um tvo möguleika er að ræða. Þetta er annaðhvort Jón eða Pétur.

Athuga að annaðhvort er ritað í einu orði þegar það er hluti þessarar samtengingar. Fornöfnin annar hvor er á hinn bóginn venja að rita í tveimur orðum. Annað hvort þeirra hlýtur að hafa skrifað bréfið; það hefur verið annaðhvort Jón eða Gunna.

Deila:
 • Senda á Facebook
 • Senda á Twitter
 • Senda tengil í tölvupósti
 • Prentvæn útgáfa
 • Setja síðu í bókamerki

annar / tugur / hundrað / þúsund / milljón

Rétt er að segja á annan tug manna, ekki á annan tug menn. Sömuleiðis á annað hundrað manna, á annað þúsund manna og á aðra milljón manna.

Deila:
 • Senda á Facebook
 • Senda á Twitter
 • Senda tengil í tölvupósti
 • Prentvæn útgáfa
 • Setja síðu í bókamerki
Bls. 1 af 3512345102030...Síðasta »