harðmæli / linmæli

Lokhljóðin p í orðinu páfi, t í orðinu torg og k í orðinu kofi eru kölluð fráblásin eða hörð lokhljóð. Lokhljóðin b í orðinu bíll, d í orðinu dalur og g í orðinu greiða eru kölluð ófráblásin eða lin lokhljóð.
Inni í orðum, á eftir löngum sérhljóðum, bera sumir Íslendingar fram hart, fráblásið lokhljóð en aðrir lint, ófráblásið lokhljóð þar sem ritað er p, t eða k. Dæmi: api, láta, vaka. Það er kallað harðmæli þegar orð af þessu tagi eru borin fram með fráblásnum eða hörðum lokhljóðum en linmæli þegar framburður slíkra orða er eins og ritað væri b, d eða g. Harðmæli er algengast á austanverðu Norðurlandi.

Deila:
  • Senda á Facebook
  • Senda á Twitter
  • Senda tengil í tölvupósti
  • Prentvæn útgáfa
  • Setja síðu í bókamerki