Ópersónulegar sagnir

Ópersónuleg sögn er ávallt í þriðju persónu eintölu og stendur oftast með henni frumlag í þolfalli eða þágufalli. Mig skortir ekkert. Mennina skortir ekkert. Mér þykir gaman á fjöllum. Þeim þykir gaman á fjöllum. Það er nokkur tilhneiging til að hafa frumlag í þágufalli með sumum sögnum þar sem frumlagið ætti samkvæmt gamalli hefð að vera í þolfalli, t.d. “henni langar upp á fjöll” í stað hana langar upp á fjöll. Enda þótt breytingin yfir í þágufall eigi sér meira en aldarlanga sögu hefur hún verið uppnefnd þágufallssýki og þykir ekki við hæfi í vönduðu máli.

Ópersónulegar sagnir, sem taka með sér frumlag í þágufalli og andlag í nefnifalli, hafa tilhneigingu til að standa í fleirtölu þegar andlagið er í fleirtölu. Mér finnast (3.p.ft.) kökur vondar. Mér svíða (3.p.ft.) gróusögur þeirra. Mér þykja (3.p.ft.) ávextir góðir. Mér duga (3.p.ft.) tvær brauðsneiðar. Þó að ekki sé mælt gegn slíkri notkun hefur fremur verið mælt með því að hafa sagnirnar í eintölu. Mér finnst kökur góðar. Mér svíður gróusögur þeirra. Mér þykir ávextir góðir. Mér dugir tvær brauðsneiðar.

Sumar ópersónulegar sagnir taka ekki með sér neitt frumlag. Slíkar sagnir eru oft kallaðar veðursagnir þar sem þær lýsa yfirleitt veðri. Í dag snjóar en í gær rigndi. Nú birtir til.

Deila:
  • Senda á Facebook
  • Senda á Twitter
  • Senda tengil í tölvupósti
  • Prentvæn útgáfa
  • Setja síðu í bókamerki