Þolmynd

Þolmynd er oft notuð þegar lögð er meiri áhersla á þolanda en geranda.

Þegar venjulegri setningu í germynd er breytt yfir í þolmynd gerist eftirfarandi:

1) Frumlag setningarinnar (gerandinn) verður í aukahlutverki og getur færst aftast í setninguna á eftir forsetningunni af en er þó oft sleppt.

2) Andlag germyndarsetningarinnar (þolandinn) verður í aðalhlutverki og færist yfir í nefnifall ef um andlag í þolfalli er að ræða en andlag í þágufalli og eignarfalli breytist ekkert.

3) Sögnin færist yfir í lýsingarhátt þátíðar og stendur með hjálparsögninni vera (einstöku sinnum verða).

Hann eldaði kvöldmatinn (þf.) verður í þolmynd: kvöldmaturinn (nf.) var eldaður (af honum).
Hann bauð mér (þg.) heim verður í þolmynd: mér (þg.) var boðið heim (af honum).
Hún gaf honum (þg.) eina rauða rós (þf.) verður í þolmynd: honum (þg.) var gefin ein rauð rós (nf.) (af henni).
Hann saknaði hennar (ef.) verður í þolmynd: hennar (ef.) var saknað (af honum).

Nokkuð er farið að bera á því að sagt sé: það var sagt mér það, það var lamið mig, það var hrint mér o.s.frv. í stað mér var sagt það, ég var laminn, mér var hrint. Ekki er mælt með þeirri nýjung.

Deila:
  • Senda á Facebook
  • Senda á Twitter
  • Senda tengil í tölvupósti
  • Prentvæn útgáfa
  • Setja síðu í bókamerki