Erlend nöfn og íslensk ættarnöfn

Oft er fólk í vafa um beygingu erlendra nafna og íslenskra ættarnafna í eignarfalli. Mælt er með eftirfarandi reglum (sjá nánara um þetta efni rit Ingólfs Pálmasonar, Um ættarnöfn og erlend mannanöfn í íslensku, 1987):

1) Ættarnöfn kvenna, innlend sem erlend, eru að jafnaði ekki beygð: að sögn Sigríðar Snævarr, þáttur Guðrúnar Kvaran, stefna (Margrétar) Thatcher, hæfileikar (Hillary) Clinton. Ekki: hæfileikar “Hillarys Clintons” o.s.frv. enda óeðlilegt að nota s-endingu með nöfnum kvenna því að s er ekki eignarfallsending í kvenkyni í neinum íslenskum beygingarflokki.

2) Erlend nöfn og innlend ættarnöfn borin af körlum.
a) Þau fá oftast s-endingu í eignarfalli: stjórn Tonys Blairs, ræða Görans Perssons, dóttir Alis Bhuttos, að sögn Árna Snævars, verk Einars Kvarans o.s.frv.
b) Endi nafnið sjálft á s-i eða öðru blísturshljóði þarf ekki sérstakt eignarfalls-s (stjórnir Landsbergis, Bush og Milosevic) en reyndar grípa sumir þá til endingarinnar -ar í eignarfalli: bók Örnólfs Thorlaciusar, stjórn Mitsotakisar.
c) Þegar erlend nöfn karla enda á sérhljóðinu -a eru nöfnin hins vegar óbeygð og er það í samræmi við (agnarsmáan) íslenskan beygingarflokk karlkynsnafnorða sem enda á -a (Esra, herra, séra), t.d. stjórn Gamsakurdia, mynd Kurosawa, útgerð Geirs Zoëga.
d) Endi nafn á öðru sérhljóði en -a ætti að styðjast við aðalregluna og nota eignarfalls-s, t.d. fylgismenn Benitos Mussolinis o.s.frv. (enda er það í samræmi við ýmis íslensk mannanöfn sem enda á öðrum sérhljóðum en -a, sbr. til Leós, Ottós o.fl.).

3) Rökrétt telst og í bestu samræmi við íslenska málhefð að beygja í eignarfalli bæði skírnarnafn og ættarnafn sem karl ber, sbr. verk Einars Kvarans, fylgismenn Benitos Mussolinis, Stofnun Sigurðar Nordals. Þetta atriði hefur verið dálítið á reiki í málsamfélaginu á öldinni og til eru þær málvenjur að beygja annaðhvort aðeins skírnarnafn eða aðeins ættarnafn (t.a.m. ákvörðun Halldórs Blöndal, stjórn Bills Clinton, stjórn Bill Clintons). Hér er ekki mælt með þeirri aðferð sem meginreglu. Vissulega verður þó smekkur stundum að fá að ráða einhverju um hve langt skuli gengið í beygingu erlendra nafna, einkum um það hvort öll nöfn skuli beygð í sumum fleirnefnum á borð við Poul Nyrup Rasmussen.

Deila:
  • Senda á Facebook
  • Senda á Twitter
  • Senda tengil í tölvupósti
  • Prentvæn útgáfa
  • Setja síðu í bókamerki