Orðasambönd með forsetningunni

Afl: Að afli. Hann er rammur að afli.
Auðugur: Eitthvað er auðugt að einhverju. Áin er auðug að fiski.
Ánægja: Það er ánægja að einhverju. Það er mikil ánægja að því að klífa fjöll.
Áskrifandi: Áskrifandi að einhverju. Þau eru áskrifendur að Morgunblaðinu.
Ástæðulaus: Að ástæðulausu. Hann fór að hlæja að ástæðulausu.
Barn: Kona er ólétt, ófrísk eða vanfær að barni. Hún er ólétt að sínu fjórða barni.
Bót: Það er bót að einhverju. Það er mikil bót að lagfæringunum.
Bragð: Að fyrra bragði. Hann ávarpaði hana að fyrra bragði. Brögð að einhverju. Víða eru brögð að því að umferðarlög séu ekki virt.
Brosa: Brosa að einhverju. Þau brostu að vitleysunni í henni.
Dást: Dást að einhverju. Ég dáist að viljastyrk þeirra.
Eftirsjá: Það er eftirsjá að einhverjum. Það er alltaf eftirsjá að góðum starfsmanni.
Eiður: Sverja eða vinna eið að einhverju. Þú verður að sverja eið að því að þú sért saklaus.
Frumkvæði: Að eigin frumkvæði. Hann hætti í skóla að eigin frumkvæði.
Gagn: Það er gagn að einhverju. Það er mikið gagn að þessari bók.
Gaman: Henda gaman að einhverju. Nemendurnir henda gaman að kennaranum. Það er gaman að einhverju. Það er oft gaman að vitleysunni í henni.
Gera: Gera mikið eða lítið að einhverju. Þau gerðu lítið að því að læra heima.
Heiður: Það er eða þykir heiður að einhverju. Mér er heiður að þessu. Mér þykir heiður að þessu.
Hlæja: Hlæja að einhverjum. Þau hlógu mikið að honum.
Kaupandi: Kaupandi að einhverju. Hann er kaupandi að tímariti.
Kunnur: Vera kunnur að einhverju. Hann er að góðu kunnur.
Leyti: Að einhverju leyti. Veislan var ómöguleg að öllu leyti.
Lýti: Það er lýti að einhverju. Það er mikið lýti að bílhræinu.
Prýði: Það er prýði að einhverju. Það er sannkölluð bæjarprýði að lystigarðinum.
Ráð: Að yfirlögðu ráði. Hún kveikti í bílnum að yfirlögðu ráði.
Ríkur: Vera ríkur að einhverju. Hann var ríkur að fé.
Skömm: Skömm að einhverju. Það er mikil skömm að því hvernig þau láta.
Sómi: Sómi að einhverju. Honum var mikill sómi að gjöfinni.
Sæmd: Sæmd að einhverju. Mér er sæmd að aðstoð þinni.
Snauður: Vera snauður að einhverju. Jarðvegurinn er snauður að næringarefnum.
Teikning: (Arkitekta)teikning að einhverju (sbr. uppskrift að einhverju). Hann lauk við teikninguna að listasafninu undir morgun.
Tilefni: Að gefnu tilefni. Að gefnu tilefni var höfð brunaæfing.
Uppskrift: Uppskrift að einhverju. Hún lét mig fá uppskrift að mjög góðri rjómatertu.
Uppvís: Verða uppvís að einhverju. Hann varð uppvís að þjófnaði.
Verða: Verði þér að því. Takk fyrir mig. Verði þér að því.
Verðleikar: Meta eitthvað að verðleikum. Kennarinn mat nemendur sína að verðleikum.
Verk: Gera að verkum. Þetta gerir það að verkum að ekki er hægt að horfa á sjónvarpið í kvöld.
Vitni: Vitni að einhverju. Þau urðu vitni að glæp.
Þekkja: Þekkja einhvern að einhverju. Við þekkjum þau að góðu einu.

Sjá einnig grein um forsetninguna af.

Deila:
  • Senda á Facebook
  • Senda á Twitter
  • Senda tengil í tölvupósti
  • Prentvæn útgáfa
  • Setja síðu í bókamerki