hvor annar

Orðin hvor og annar eiga ekki að beygjast saman. Orðið hvor á að standa í sama falli og gerandinn (venjulega í nefnifalli) en annar stendur nær aldrei í nefnifalli. Þeir ásökuðu hvor annan (ekki: hvorn annan). Þeir horfðu hvor á annan (ekki: á hvorn annan). Þeir ógnuðu hvor öðrum (ekki: hvorum öðrum). Þeir stálu hvor frá öðrum (ekki: frá hvorum öðrum). Þeir söknuðu hvor annars (ekki: hvors annars). Þeir óku hvor til annars (ekki: til hvors annars).  Þeir girntust eigur hvor annars (ekki: hvors annars). Þær stríddu hvor annarri (ekki: hvorri annarri). Þetta fer ekki á milli mála í föstum orðasamböndum. Þeir töluðu hvor í kapp við annan. Þeir ultu hvor um annan þveran.

Hvor og annar eru í fleirtölu ef þau vísa til orða í fleirtölu eða til fleirtöluorða. Íslendingar og Grænlendingar hjálpa hvorir öðrum.

Stundum er gerandinn ekki í nefnifalli, þá fylgir hvor gerandanum eigi að síður. Siggu og Gunnu dreymir hvora aðra. Siggu  og Gunnu þykir vænt hvorri um aðra. Sagan fjallaði um róg frambjóðendanna tveggja hvors um annan.

Deila:
  • Senda á Facebook
  • Senda á Twitter
  • Senda tengil í tölvupósti
  • Prentvæn útgáfa
  • Setja síðu í bókamerki